Sjálfstæði

Talsmaður neytenda er sjálfstætt embætti á vegum ríkisins en í lögunum er sérstaklega kveðið á um sjálfstæði talsmanns neytenda gagnvart öðrum:

„Talsmaður neytenda er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum. Álitum talsmanns neytenda sem unnin eru á grundvelli laga þessara verður ekki skotið til annars stjórnvalds.”

Um þetta ákvæði segir í athugasemdum með frumvarpinu:

„Með ákvæði 10. gr. er lögð áhersla á það að talsmaður neytenda sé óháður fyrirmælum frá öðrum í störfum sínum, en sökum eðlis starfa hans er mikilvægt að hann sé sjálfstæður gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum. Í ljósi þess að fyrirsjáanlegt er að ábendingar tals manns neytenda geti beinst gegn stjórnvöldum, m.a. þeim sem fara með neytendamál, er mikilvægt, ekki síst til að tryggja traust almennings á störfum talsmannsins, að talsmaður neytenda sé sjálfstæður og óháður þessum aðilum í störfum sínum.
Í ákvæðinu er einnig kveðið á um það að álitum talsmanns neytenda verði ekki skotið til annars stjórnvalds.“

Trúverðugleiki
Auk þess að tryggja sjálfstæði talsmanns neytenda kveða lögin á um sérstaka og stranga hæfisreglu um þann einstakling sem gegnir embætti talsmanns neytenda umfram almennar reglur um embættismenn sem einungis hafa tilkynningarskyldu um hugsanleg aukastörf. Í lögunum segir:

„Talsmanni neytenda er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf eða takast á hendur verkefni sem eigi samrýmast starfi hans.“

Í því skyni að auka trúverðugleika og gagnsæi á störf talsmanns neytenda má hér lesa yfirlit yfir lífshlaup Gísla og einnig er hér birt sérstakt yfirlit yfir trúnaðarstörf Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, og önnur tengsl sem máli geta skipt við mat á þessu lagaákvæði og hæfisreglum stjórnsýsluréttar.

Engar gjafir frá fyrirtækjum á neytendamarkaði
Með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga (III kafli), ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (1. mgr. 14. gr.), dreifibréfi fjármálaráðuneytis um viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna (4. tl.), reglum viðskiptaráðherra um viðskipti stjórnarmanna, forstjóra og starfsmanna Fjármálaeftirlitsins við eftirlitsskylda aðila (2. mgr. 3. gr.) og 128. gr. almennra hegningarlaga tekur talsmaður neytenda ekki við gjöfum frá fyrirtækjum á neytendamarkaði sem ekki eru veittar neytendum almennt og eðlilegt getur talist. Sama gildir um aðra ívilnun frá fyrirtækjum á neytendamarkaði.

Varðandi móttökur er metið hverju sinni hvort þegið skuli boð í móttöku hjá fyrirtæki á neytendamarkaði af sérstökum tilefnum þar sem fleiri aðilum úr stjórnsýslu og viðskiptum er boðið. Sem dæmi má nefna að talsmaður neytenda hefur tvívegis þegið boð í lokaðar en fjölmennar móttökur í tilefni af 100 ára afmælum fyrirtækja auk þess að mæta í opna stórveislu fyrir almenning í tilefni af 120 ára afmæli annars fyrirtækis.