Áhrif til úrbóta í neytendamálum

Talsmaður neytenda hefur það hlutverk að gera tillögur um úrbætur á sviði neytendamála – m.a. til þess að bregðast við brotum gegn réttindum og hagsmunum neytenda. Tillögur um úrbætur geta bæði verið almennar og sértækar.

Almenn áhrif til úrbóta

Almenn tillögugerð talsmanns neytenda felst í því að hann setur fram tillögur um úrbætur á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða neytendur sérstaklega, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laganna. Er það annars vegar gert með tillögum – ýmist að eigin frumkvæði eða að gefnu tilefni, svo sem í kjölfar erindis eða vegna umfjöllunar í fjölmiðlum. Slíkar tillögur geta bæði beinst til einstakra ráðherra – og jafnvel picþingnefnda þegar sérstaklega stendur á – eða stjórnsýslustofnana sem fara með heimild til þess að setja stjórnvaldsfyrirmæli á tilteknu sviði neytendamála. Frá og með árinu 2007 er hlutaðeigandi ráðherra eða stofnun kynnt málið óformlega áður en tillaga um úrbætur á lögum eða reglum er kynnt opinberlega.pic

Hins vegar eru gerðar tillögur og athugasemdir í umsögnum vegna fyrirhugaðra reglna. Algengast er að gefnar séu umsagnir til fastanefnda Alþingis sem óska eftir umsögn embættisins um lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur sem þar eru til meðferðar; aðeins eru gefnar umsagnir um þau mál er teljast varða neytendur sérstaklega samkvæmt framangreindu og t.a.m. ekki gefnar umsagnir um skattamál almennt. Umsagnir talsmanns neytenda eru gjarnan rökstuddar skriflega og í kjölfarið er talsmaður neytenda stundum kallaður á fund þingnefndar til þess að gera nánari grein fyrir umsögn sinni.

Þá færist í vöxt að ráðuneyti sendi talsmanni neytenda til umsagnar drög að lagafrumvörpum eða öðrum reglum á vinnslustigi eins og farið var fram á við öll ráðuneyti með bréfi frá 28. nóvember 2005. Loks getur talsmaður neytenda beitt sér með umsögnum gagnvart stofnunum Evrópusambandsins vegna sameiginlegra reglna sem koma til með að hafa þýðingu fyrir neytendur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.

Sértæk áhrif til úrbóta

Sértækar tillögur geta t.d. varðað tiltekna málaflokka eða ákveðið svið viðskipta að gefnu tilefni og getur talsmaður neytenda þá gert tillögur um úrbætur að því er varðar réttindi og hagsmuni neytenda í því máli eða á því sviði með rökstuddri álitsgerð, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. laganna. Slík álitsgerð horfir þá gjarnan til fortíðar, svo sem ef talið er að brotið sé gegn réttindum og hagsmunum neytenda. Í samræmi við stefnumótun embættis talsmanns neytenda að líta með lausnarmiðuðum hætti til framtíðar beinir hann oftar tilmælum til fyrirtækja um úrbætur á tilteknum viðskiptaháttum án þess að beinlínis sé tekin afstaða til þess hvort með fyrri viðskiptaháttum hafi verið brotið gegn hagsmunum eða réttindum neytenda. Oft er þó gripið til þessa úrræðis að gefnu tilefni og eru tilmælin þá ýmist gefin út að eigin frumkvæði eða að fenginni ábendingu frá neytendum eða almannasamtökum. Tilmæli eru sett fram með einföldum og gagnorðum hætti efitr undangengið samráð við hlutaðeigandi fyrirtæki um tilefni og lagaleg rök að baki, inntak hugsanlegra tilmæla og hversu langt eigi að ganga í tilmælum og um frest til þess að fara að tilmælum talsmanns neytenda. Þetta samráð á sér oft stað óformlega á fundum, í tölvupósti og í síma en málinu lyktar með formlegum skriflegum tilmælum eða ákvörðun um að aðhafast ekki að sinni.

Þá hefur komið til þess að talsmaður neytenda hafi sent ábendingu til stjórnsýsluaðila sem lýtur að almennri framkvæmd laga eða reglna á sviði þess stjórnsýsluaðila – og þá einkum ef talsmanni neytenda virðist brotið gegn hagsmunum eða réttindum neytenda og stjórnsýsluaðilinn er ekki með málið í vinnslu.